• Icelandic
Mánudaginn 3. maí, 2004 - Vesturland

Lausagöngufjós á stærsta búi í Dölum

 

 
Búðardalur | Stærsta bú í Dölum, Lyngbrekka á Fellsströnd, var með opið hús nýlega í tilefni af því að miklar breytingar hafa verið gerðar á fjósinu en því hefur verið breytt í lausagöngufjós með mjaltabás.

Búðardalur | Stærsta bú í Dölum, Lyngbrekka á Fellsströnd, var með opið hús nýlega í tilefni af því að miklar breytingar hafa verið gerðar á fjósinu en því hefur verið breytt í lausagöngufjós með mjaltabás. Á bænum búa hjónin Sigurður Björgvin Hansson og Bára Sigurðardóttir og stunda búskap ásamt syni sínum, Kristjáni, sem er í búfræðinámi á Hvanneyri.

Þau hófu búskap á Lyngbrekku árið 1976 og eru nú á búinu 550 fjár og 50 mjólkandi kýr, sem gerir Lyngbrekkubúið að stærsta innleggjanda í Mjólkursamlagið í Búðardal. Fjósið er allt hið glæsilegasta, með fullkomnum mjaltabás og sjálfgjafarkerfi, bæði fyrir hey og kjarnfóður. Fjósið er tölvuvætt og er hægt að lesa upplýsingar um gripina, bæði hvað þeir eta og nyt þeirra, í tölvu.

Innréttingar, Weelink-fóðurkerfi og búnaður er frá Landstólpa ehf., súrkornabás og ISO-loftræstimænir er frá Vélavali í Varmahlíð, SAC-mjaltabás 2x5 og tveir tölvustýrðir kjarnfóðurbásar eru frá Remfló.

Sáu þeir feðgar að mestu leyti um að setja innréttingarnar upp sjálfir. Mjólkurkvótinn er 260 þús. lítrar og styrkir þetta bú stöðu Dalanna í mjólkurframleiðslu og býður aðstaðan upp á enn meiri stækkun. Framkvæmdin við fjósið hófst í febrúar í fyrra og kostaði alls um 17 miljónir, og breyttist meðal annars hlutverk hlöðu sem var byggð á bænum1979 og er hún nú hluti af fjósinu.

Þau hjónin segja þessar framkvæmdir lið í að bregðast við vaxandi samkeppni á mjólkurmarkaði og vona að mjólkursamningarnir verði bændum hagstæðir. Á sumrin rækta þau korn á u.þ.b. 15 hekturum lands og hafa þau keypt kornþreskivél til kornskurðar fyrir sig og aðra kornbændur í sveitinni.

Ekki er þetta það eina sem þau hafa fyrir stafni, heldur á Bára fullkomið söðlasmíðaverkstæði og framleiðir vörur undir merkinu Flugureiðtygi, sem eru bæði hnakkar, beisli og annað sem viðkemur hestamennsku. Einnig smíðar hún glímubelti, hundaólar o.fl. Þá er hún með umboð fyrir Vélar & þjónustu sem selja rúlluplast, garn, rúllunet, sáðvörur og ýmsar rekstrarvörur fyrir bændur.

Þrír nýbornir kálfar, sem komu í heiminn þennan dag, glöddu augu gestanna. Sá er síðast fæddist er hundraðasti nautgripurinn.

 
 
Fimmtudaginn 7. febrúar, 2008 - Innlendar fréttir

Afurðir verða að hækka vegna aukins kostnaðar

Kýrnar á Lyngbrekku í Dölum mjólka mest

 
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Fellsströnd | Bændurnir á afurðahæsta kúabúi landsins telja að stöðug vinna við ræktun og fóðuröflun sé lykillinn að árangrinum ásamt mjaltatækninni en mjaltaþjónn annast verkið á þeirra búi.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Fellsströnd | Bændurnir á afurðahæsta kúabúi landsins telja að stöðug vinna við ræktun og fóðuröflun sé lykillinn að árangrinum ásamt mjaltatækninni en mjaltaþjónn annast verkið á þeirra búi.

Lyngbrekkubúið á Fellsströnd í Dalabyggð varð afurðahæsta kúabú landsins á síðasta ári, samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds í nautgriparækt. Hver kýr á búinu skilaði að meðaltali 7.881 kg mjólkur.

Hjónin Sigurður Björgvin Hansson og Bára Sigurðardóttir byggðu nýbýlið Lyngbrekku út úr Orrahóli 1975 og hafa búið þar síðan, síðustu tvö árin í félagi við Kristján son sinn. Þau byggðu íbúðarhús 1975 og útihús á árunum 1979 til 1981. Sigurður segir að þau séu búin að breyta þessum byggingum mikið og stækka. Þannig byggðu þau mjaltabás á árinu 2003 og breyttu yfir í lausagöngu. Mjaltabásinn var þó ekki í notkun nema stuttan tíma því þau keyptu sér mjaltaþjón sem hefur annast mjaltirnar síðan. „Við vildum létta vinnuna og langaði ekki að standa við mjaltir marga klukkutíma á dag,“ segir Bára.

 

Fóðuröflunin er undirstaðan

Nokkurt rót varð á framleiðslunni fyrst eftir að mjaltaþjónninn var tekinn í notkun en síðan hefur leiðin legið upp á við. Meðalafurðir á hverja kú hafa aukist um leið og kúnum hefur verið fjölgað og keyptur aukinn mjólkurkvóti. Á síðasta ári stóðu um 59 svokallaðar árskýr undir framleiðslunni. Kýrnar geta gengið frjálst um fjósið, hafa alltaf aðgang að fóðri og eru mjólkaðar þrisvar til fjórum sinnum á sólarhring og fá um leið kjarnfóður í mjaltabásnum, og heimaræktað korn að auki. Bára tekur fram að kjarnfóðurgjöf hafi ekki verið aukin.

Fóðuröflunin er þó undirstaðan í árangri í mjólkurframleiðslunni. Kristján sonur þeirra sér mikið til um ræktunarstörfin og hefur komið sér upp tækjabúnaði til þess. Túnin eru endurræktuð reglulega og mikið ræktað af grænfóðri auk korns.

Sigurður og Bára hafa frá upphafi stundað nautgripa- og sauðfjárrækt. Lengi vel framleiddu þau innan við 50 þúsund lítra á ári en nú eru þau komin með framleiðslurétt fyrir 460 þúsund lítrum á ári. Að auki eru þau með 560 kindur. „Það liggur mikið fé í kvóta bænda og ég er ekki viss um að allir yrðu glaðir við að missa hann,“ segir Sigurður, spurður um umræðuna um að fella niður kvótakerfið. Hann bætir við: „Það er í sjálfu sér ekkert að því en hvernig ætti þá að stýra framleiðslunni? Áður voru menn að framleiða og framleiða en ekkert seldist. Nú er góð sala í mjólkurafurðum og vaxandi.“ Bára hnykkti á þessu með því að segja að best væri að halda núverandi kerfi og reyna að auka útflutning á mjólkurvörum.

Fleiri ógnanir eru við rekstur kúabúa um þessar mundir. Kjarnfóðrið hefur hækkað mikið og fjármagnskostnaður og nú hafa fréttir borist af tugprósenta hækkun á áburði. Sigurður bætir því við að allir kostnaðarliðir í rekstrinum hafi hækkað verulega. „Mjólkin hefur ekki hækkað neitt sem heitið getur. Það segir sig sjálft að við verðum að fá hækkanir á afurðirnar til að mæta þessum kostnaðarhækkunum,“ segir hann.

Þau hjónin telja að komi ekki til hækkana á afurðaverði hljóti einhverjir bændur gefast upp.

 

Vilja flytja inn

Innflutningur á nýju kúakyni hefur í mörg ár verið hitamál í bændastétt og náð langt út fyrir raðir bænda. Þótt kýrnar á Lyngbrekku skili miklum afurðum vilja bændurnir þar skoða innflutning með opnum huga. Sigurður bendir á að kúabændur í nágrannalöndunum séu komnir miklu lengra í kynbótum en Íslendingar enda geri smæð íslenska kúastofnsins það að verkum að kynbætur séu seinlegar. Þau telja innflutning ekki sérstaka vá fyrir íslenska kynið ef hann færi fram með kynbótum. „Þá gætu þeir tekið þetta sem vildu og uppbygging nýs stofns tæki langan tíma,“ segir Sigurður og telur rangt að tala um að skipta um kúakyn ef þessar aðferðir yrðu notaðar.

Bændurnir á Lyngbrekku líta fyrst og fremst til þess að fá háfættari kýr með betri júgurgerð. „Það er ekki nóg að auka framleiðslugetu kúnna ef ekki er hægt að ná úr þeim mjólkinni,“ segir Sigurður og bendir á að íslensku kýrnar séu fastmjólka og því seinlegt að mjólka þær. „Það má ekki stöðva framþróunina. Þeir sem vilja hafa íslensku kúna munu hafa val um það,“ segir Sigurður.

Í hnotskurn
» Miklar breytingar hafa orðið í búskap á Fellsströnd, eins og víðar. Þar er nú búskapur á fimm jörðum í stað tuttugu fyrir ekki svo mörgum árum.
» Lyngbrekkubúið á tvær jarðir og leigir þá þriðju. Bændurnir heyja á þremur jörðum til viðbótar og nýta því sex jarðir við búskapinn.
 
. apríl 2009 08:11

Bóndinn á Breiðabólstað fær sérútbúinn Ferguson

 

Þórður Halldórsson bóndi á Breiðabólstað á Skarðsströnd í Dölum varð fyrir áfalli í ágústmánuði sumarið 2007 þegar hann fékk heilablóðfall og lamaðist hægra megin. Sveitungar og nágrannar Þórðar brugðust skjótt við, sérstaklega Trausti Bjarnason bóndi á Á, sem sendi dreifibréf um sveitina og nágrennið með áskoruninni „Stöndum saman.“ Opnaður var söfnunarreikningur í Kaupþingi í Búðardal og þá létu félagar Þórðar í karlakórnum Söngbræðrum í Borgafirði ekki sitt eftir liggja og efndu til söngskemmtunar til stuðnings Þórði um kaup á sérútbúinni dráttarvél, þannig að einhverjir möguleikar væru á að hann gæti haldið áfram búskap á Breiðabólstað.

 

 

 

Ef veður hamlar ekki mun birtast einhvern næsta dag á hlaðinu á Breiðabólstað, nýr traktor af Massey Ferguson gerð, sérbúinn með öllum stjórntækjum vinstra megin. Rúnar Jónasson á Valþúfu, nágranni Þórðar, segir að þetta sé reyndar alveg andsnúið Þórði pólitískt séð að þurfa að skipta yfir til vinstri og það rétt fyrir kosningar, en Rúnar var einmitt samferða Þórði á Selfoss á dögunum þar sem hann gerði úttekt á breytingunum á vélinni og gekk frá síðustu greiðslum vegna kaupanna til Jötunvéla.

 

Anna Karin Sederholm eiginkona Þórðar, hefur verið kennari við Grunnskólann í Búðardal, en tók sér ársfrí til að hlaupa í skarðið við búskapinn. Hún segir að það komi sér ákaflega vel að fá traktorinn núna, enda vorstörfin á næsta leiti. Á Breiðabólstað er stórt fjárbú, um 700 fjár og því ekki heiglum hent fyrir fatlaðan mann að sinna bústörfunum. „Við erum mjög þakklát öllum sem hafa stutt við okkur og gert okkur þetta kleift. Þórður er mjög laginn við vélar og við vonumst til að nýja vélin hjálpi okkur til að geta stundað búskapinn áfram. Við höfum notið mjög góðrar aðstoðar föður Þórðar, sem er vel á sig kominn þótt hann sé orðinn fullorðinn. Það er samt ómögulegt að sjá hversu mikil framtíð er í búskapnum hjá okkur. Það kemur bara í ljós,“ segir Anna Karin Sederholm, sem er frá Skáni í Svíþjóð, en hefur búið á Íslandi í níu ár og talar íslensku eins og innfæddir.

19. október 2005 12:15

Sauðburður á Hallsstöðum í Dölum

 

Heimilsfólkið á Hallsstöðum í Dölum rak upp stór augu á dögunum þegar það sá að tvær ær á bænum höfðu borið. Friðjón Guðmundsson bóndi á Hallsstöðum segir að ein vetrargömul ær og önnur tveggja vetra hafi borið á svipuðum tíma og telur hann að ein ær til viðbótar eigi eftir að bera. Það er ekki óþekkt að ær beri utan hefðbundins tíma en frekar óvenjulegt er að fleiri en ein beri á svo óvenjulegum tíma sem haustið óneitanlega er í þessu samhengi.

 

 

 

 

8. september 2009 13:03

Mjög gott útlit með kornrækt og fóðuröflun í Lyngbrekku

 

 

 
 
„Þetta lítur vel út með kornuppskeruna og mér sýnist að hún verði ekki síðri en síðustu haust. Það hefur verið heppilegt tíðarfar bæði til heyskapar og kornræktar. Ágætist rekja var í maí og júní sem nýttist vel fyrir sprettuna,“ segir Kristján Sigurðsson annar bænda á Lyngbrekku á Fellsströnd í Dölum. Þeir Lyngbrekkubændur eru nýbyrjaðir að slá kornakrana en tóku hlé fyrir helgina meðan verið var að hirða há af túnum.  Á Lyngbrekku var sáð byggi í 30 hektara og hefur uppskeran venjulega verið um 100 tonn. Það dugar í helming fóðurbætisgjafar fyrir rúmlega 60 mjólkandi kýr í fjósinu á Lyngbrekku. Kornrækt hefur verið stunduð þar í sex ár og öll árin heppnast ágætlega, kornið alltaf sprottið vel og aldrei skemmst vegna veðurs. Gæsin hefur þó stundum gert sig heimakomna en aldrei valdið neinu stórtjóni.

 

Sjá nánar í Skessuhorni sem kemur út á morgun.

 Lyngbrekkubændur

 

Lyngbrekkubændur

 

Íslenskir bændur hafa þurft að búa við stöðugt erfiðari rekstrarskilyrði síðustu þrjátíu árin frá því framleiðslustýring var komið á með kvótasetningu, eftir viðmiðunarárin 1977-’78. Allt frá þeim tíma hefur sífellt verið talað um hagræðingu og aftur hagræðingu, og sjálfsagt eru margir, ekki síst bændur, orðnir hundleiðir á þessu orði, hagræðing. Það hefur löngum verið vitað að þrátt fyrir að margir neytendur býsnist yfir háu verði á landbúnaðarvörum, skila þær ekki miklu í vasa bóndans og fjarri lagi að hægt sé að hagræða endalaust í búskapnum. Hreint er þó með ólíkindum hvernig sumum bændum í landinu hefur tekist að búa í haginn. Á þessum þrengingatímum tekist að byggja upp góðan húsakost, tæknivætt búið og stóraukið framleiðsluheimildir, með því að kaupa kvóta. Maður spyr sig eiginlega hvernig í ósköpunum þetta sé hægt, án þess að raunverulega bankinn eignist búið, sem reyndar eru því miður mörg dæmi um að málin hafi þróast. Slíkt er þó ekki uppi á teningnum í Lyngbrekku á Fellsströnd, sem um árabil hefur verið með afurðabestu búum landsins. Það sem er athyglisvert við árangur þeirra Lyngbrekkubænda, er að um nýbýli er að ræða sem sett var á stofn í þann mund sem framleiðslustýring var að hefja innreið sína í íslenskum landbúnaði, í óðaverðbólgu og gengistryggingu lána sem reyndist mörgum erfitt. Það var því ekki þessi sterki grunnur til að byggja á, sem að mörgum hefur verið talin forsendan til þess að ungir bændur geti byrjað búskap á Íslandi.

 

Framleiðsluheimildir hafa tífaldast

Hjónin í Lyngbrekku eru bæði  úr Dölunum og byrjuðu búskap á Lyngbrekku árið 1975. . Þaðan er Sigurður Björgvin Hansson en kona hans Bára Sigurðardóttir er frá Kýrunnarstöðum í Hvammssveit. Að sjálfsögðu þurfti að byggja upp öll hús á nýbýlinu Lyngbrekku. Byggingu íbúðarhússins var lokið þegar verðtryggingin var sett á allar lánveitingar um 1980. Þá átti eftir að byggja upp öll peningshúsinu á Lyngbrekku og lán sem taka þurfti vegna þeirra framkvæmda voru því öll verðtryggð. Á Lyngbrekku hefur alltaf verið blandaður búskapur, bæði kýr og sauðfé, en mjólkurframleiðslan verið þó uppistaðan í búskapnum. Síðustu árin hefur svo Kristján sonur þeirra Sigurðar og Báru komið inn í búskapinn, þannig að segja má að orðið sé tvíbýlt á nýbýlinu. Kristján er menntaður í búfræði frá Hvanneyri og hann hefur tekið að sér uppbyggingu í kornræktinni sem þeir Lyngbrekkubændur hafa stundað með góðum árangri síðustu sex árin. Þau Sigurður og Bára segja að vissulega hafi þau lent á mjög óheppilegum tíma að byrja búskap á Lyngbrekku.

„Þetta var auðvitað mjög slæmt að byrja á þessum tíma. Það var ekki mikil framleiðsla hjá okkur á viðmiðunarárunum, enda vorum við þá að byggja upp bústofninn. Kvótinn hjá okkur í mjólkinni fór niður í 47.000 lítra þegar hann var minnstur. Við höfum svo smám saman verið að bæta við okkur og núna er kvótinn kominn upp í 586.000 lítra þetta verðlagsár og veitir ekki af. Mesta aukningin hefur verið hjá okkur seinni árin eftir að Kristján kom að full inn í búskapinn með okkur  og urðum við að stækka fjósið og fara út í meiri tæknivæðingu. Við settum mjaltabás í fjósið fyrir sex árum og róbótinn kom síðan fyrir þremur árum,“ segir Sigurður.

 

„Hobbíbúskapur“ í sauðfénu

Það gefur auga leið að með aukinni framleiðslu hafa Lyngbrekkubændur þurft að verða sér úti um auknar slægjur. Þeir heyja nú á sex jörðum, hafa yfir að ráða 130 hektara túnum og ökrum, en sáð er korni í 30 hektara. Heyskapurinn gekk óvenjulega vel í sumar, rúllurnar voru orðnar 350 framyfir heyskap síðasta sumars, áður en byrjað var að slá hána, en seinni sláttur stóð einmitt yfir um það leyti sem blaðamaður Skessuhorns leit í heimsókn í Lyngbrekku.

„Við keyptum jörðina Svínaskóg hér við hliðina ,leigum jörðina Kýrunnarstaði  og heyjum á þremur öðrum jörðum  auk Lyngbrekku og á nokkrum þeirra eru sumarbústaðir. Kristján keypti  sauðfjárkvóta og mjólkurkóta og kýr  það varð okkur líka hvatning að auka við mjólkurkvótann eftir að hann kom inn í búskapinn. Við erum með 560 fjár, um 500 ærgildi. Sauðfjárbúskapurinn er samt eiginlega hobbíbúskapur hjá okkur. Það verður að taka þetta svolítið létt,“ segir Bára og hlær.

Það er ljóst að þessi mikla uppbygging í Lyngbrekku hlýtur að vera komin á annað hundrað milljónir. Eitthvað hlýtur að sitja eftir að skuldum enn í dag. „Það gerir það auðvitað, en samt er það hlutfallslega lítið þar sem langt er síðan við fórum í margar þessara framkvæmda. Þeir voru mjög duglegir að vinna sjálfir að því þegar fjósið var  stækkað og við sluppum tiltölulega vel,“ segir Bára.

 

Kornræktin hagkvæm

Lyngbrekkubændur eru búnir að byggja upp góða aðstöðu til að framleiða korn. Skemma á  jörðinni Svínaskógi sem þeir keyptu , er nýtt sem kornhlaða og þar er tækjabúnaður bæði til að  þurrka kornið. Þar er kornið sekkjað og það flutt heim í síló. Kornið er eins og annað fóður síðan skammtað til kúnna meðan róbótinn mjólkar þær . Þeir Lyngbrekkubændur fá um 100 tonn af byggi af hekturunum 30 sem þeir sá í. Þetta eru um helmingur af fóðurbætisgjöfinni til kúnna og hefur dugað það vel að Lyngbrekkubúið hefur verið á lista yfir afurðahæstu búin síðustu árin. Var það afurðahæsta á árinu 2007 með 7.881 lítra.

„Það er ekki spurning að fyrir þá bændur sem hafa land og aðstöðu til að rækta korn eru þetta mikil búdrýgindi, þó að leggja þurfi út í talsverða fjárfestingu. Kýrnar eru mjög hrifnar af korninu og það nýtist vel í fóðurbætisgjöfinni,“ segir Kristján, en þess má geta að kornbændur hafa einnig orðið ágæta möguleika á að koma hálminum í lóg. Standa jafnvel vonir til að hann skili í framtíðinni jafnmiklum verðmætum og kornið.

En hvernig líst þeim Lyngbrekkubændum á yfirvofandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið. „Auðvitað líst okkur ekkert á það. Sjálfsagt verður ekkert auðvelt að standast samkeppnina við bullandi innflutning. Maður er svolítið hræddur um að sjávarútvegsmálin verði okkur erfið og að ekki verði lögð mikil áhersla á sérstöðu íslensks landbúnaðar í þessum samningum. Vonandi verður ekkert úr því að við verðum þvinguð inn í Evrópusambandið,“ sagði Sigurður Björgvin Hansson bóndi í Lyngbrekku að endingu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Guójón á Kýrunnarstöðum:

 

 

Guójón á Kýrunnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.